Möðruvallahreyfingin

- BARÁTTUSAGA -

Inngangur bókarinnar:

Lifandi hugsjónir

Framsóknarflokkurinn hafði misst væna flís úr feitum sauð  þegar Möðruvellingar hurfu á  braut og má segja að það  hafi verið upphafið að  endalokum flokksins sem öflugs mótvægis við  Sjálfstæðisflokkinn.“1

      Snorri G. Bergsson, sagnfræðingur, 2008. 

      Á nýliðnum áratug var íslensku samfélagi breytt í siðlausan leikvang græðgi og gróða sem varð sem rjúkandi rúst er vetur gekk í garð  árið 2008. Áhorfendur græðgisleikanna, alþýða manna á  Íslandi, lá eftir á berangri með óbærilega skuldabyrði vellauðugra fjárglæframanna og flokksgæðinga á bakinu.

      Það  þurfti ekki að fara svo.

      Undir lok sjöunda áratugar 20. aldar og á fyrstu árum þess áttunda gerði fjölmenn og vösk sveit ungra hugsjónamanna úrslitatilraun til að tryggja að Framsóknarflokkurinn bæri fram til sigurs þá stefnu félagshyggju og samfylkingar til vinstri sem flokksþing höfðu mótað og ríflega 28% kjósenda lýst stuðningi við í Alþingiskosningum. Gegn þessu snerust hægri menn í flokknum og þegar á leið einnig helstu forystumenn hans.

      Um margra ára skeið var harkalega tekist á um hvort Framsóknarflokkurinn ætti að vera í fylkingarbrjósti vinstri hreyfingarinnar í landinu eða rótlaus miðflokkur sem tæki þátt í ríkisstjórn ýmist til hægri eða vinstri eftir því hver biði best á uppboðsmarkaði stjórnmálanna. Þessari baráttu, sem kennd hefur verið við SUF og Möðruvallahreyfinguna, lyktaði með sigri hægri manna vorið 1974 og stjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn. Þar með var sá flokkur sem við höfðum gengið til liðs við í reynd ekki til lengur. Flokksforystan hafði snúið baki við þeirri grundvallarstefnu sem flokkurinn hafði boðað þjóðinni mörg undanfarin ár og samþykkt var á flokksþingum, en þess í stað gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um að framkvæma það í ríkisstjórn og á Alþingi sem Framsóknarflokkurinn hafði áður barist gegn.

      Þessi afdrifaríka ákvörðun flokksforystunnar fyrir rúmum 30 árum var upphaf þeirrar þróunar sem breytti næst stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar í smáflokk sem biðlaði ákaft til hægri á markaðstorgi valdsins. Tólf ára samfellt stjórnarsamstarf undir forystu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar lagði síðan grundvöll að óheftri græðgisvæðingu íslensks efnahagslífs. Í stað þess að Framsóknarflokkurinn hefði forystu um uppbyggingu samfélagsins eftir leiðum jafnaðar, samvinnu og lýðræðis, beittu þessi samtvinnuðu hægri öfl valdastöðu sinni til færa eignir þjóðarinnar til pólitískra einkavina og breyta fjármálalífinu í eftirlitslítið spilavíti sem á örfáum árum leiddi til hrikalegra misréttis og meiri ójafnaðar en nokkru sinni fyrr í sögu landsins, og að lokum til gjaldþrots einkavæddu bankanna og margra stórfyrirtækja sömu eigenda, en skildi almenning eftir í hrikalegum skuldaklafa.

     Í ljósi þeirra hræðilegu áfalla sem öfgastefna hægri manna hefur kallað yfir íslenska þjóð fannst mér í senn brýnt og tímabært að rifja upp gang þess örlagaríka stríðs sem ungir Framsóknarmenn og Möðruvallahreyfingin háðu árum saman um sál Framsóknarflokksins. Þar lögðum við mesta áherslu á eftirfarandi baráttumál:

      1) Sameiningu vinstri manna.

      2) Varanlega vinstri stjórn.

      3) Samstarf og eflingu samvinnuhreyfingar og verkalýðshreyfingar.

      4) Sjálfstæða utanríkisstefnu og brottför bandaríska hersins.

      5) Nýja og róttæka byggðastefnu.

      6) Lýðræðislegri vinnubrögð og aukinn heiðarleika í opinberu lífi.

      7) Nýtt lífsgæðamat.

      8) Einarða afstöðu ungs fólks í stjórnmálum.

      Þrátt fyrir uppstokkun á vinstri væng stjórnmálanna hin síðari ár hefur sameining vinstri manna í einn stjórnmálaflokk ekki enn orðið að þeim stórhuga veruleika sem SUF og Möðruvallahreyfingin börðust fyrir. Markmið barátunnar var samruni Samvinnu- og Jafnaðarmanna í einn flokk, það er allra þeirra kjósenda sem aðhylltust samvinnu, jöfnuð og lýðræði en skiptu sér engu að síður á milli fjögurra flokka: Framsóknarflokks, Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Þessum nýja flokki var þannig lýst í stefnuyfirlýsingu SUF og SFV sem birt var um miðjan mars 1971: „Hinn nýi flokkur, sem samstundis yrði stærsta og sterkasta stjórnmálaafl þjóðarinnar, mundi í nánu samstarfi við verkalýðahreyfingu og samvinnuhreyfingu hrinda í framkvæmd þeim þjóðfélagsmarkmiðum, sem fyrr eru greind. Hann myndi hefja stjórnmálastarf á hærra svið, varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og skapa henni það samfélag, sem meirihluti hennar vill í reynd og þráir.“2

      SUF lagði einnig mikla áherslu á „að fara nýjar leiðir til að gera staðnað lýðræði að virku lýðræði“3 og stuðla þannig að því „að heiðarleiki, lýðræðislegur hugsunarháttur og ábyrgðatilfinning verði leiðarljós þátttakenda í þjóðmálastarfi.“ Með það í huga yrði þegnunum „tryggður aðgangur að upplýsingum um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka og opinberra stofnana“ og átak gert „til að auka áhrif þegnanna í fyrirtækjum, ríkisstofnunum, hagsmunasamtökum og skólum.“ Möðruvallahreyfingin vildi gera kjósendum kleift að velja beint fulltrúa sína á Alþingi og taldi að persónukosningar „yrðu verulegt skref í lýðræðisátt. Ef hver kjósandi gæti um leið og hann velur flokk ákveðið röðun frambjóðanda á lista flokksins, yrði vald fólksins aukið til muna.“4 Sérstaklega var við því varað „að einstakir fjármálamenn eða fjármálaklíkur safni valdi í krafti peninga sinna.“

      „Hin sönnu lífsgæði“ var einn þeirra átta málaflokka sem þing SUF á Akureyri 1972 lagði mesta áherslu á. Þar var eindregið lýst andstöðu við „átrúnað á peningaguðinn og peningavaldið. Hafna ber gildismati gróðahyggjunnar en fóstra með þjóðinni lífsgæðamat sem setur manngildi, andlegt og líkamlegt heilbrigði, öflugt menningarstarf og hreina og óspillta náttúru í öndvegi.“5

     Þegar barátta SUF hófst fyrir alvöru á síðari hluta sjöunda áratugarins var almennt litið á ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna sem auðmjúka þjóna flokks og forystu; ungliðarnir áttu fyrst og fremst að vera „senditíkur og atkvæðasmalar fyrir forystuna með nokkurra ára millibili“ eins og komist var að orði í Hvítbók fráfarandi stjórnar FUF í Reykjavík haustið 1971. Forysta SUF var á annarri skoðun; við töldum mikilvægt að ungt fólk væri stefnumótandi og sjálfstætt í skoðunum, héldi óhikað á málum sínum og sýndi einarðlega afstöðu í samskiptum sínum við forystu flokksins á hverjum tíma. Þetta leiddi til þess að SUF varð sífellt sjálfstæðara og lagði vaxandi áherslu á að vinna stefnu sinni brautargengi ekki aðeins innan Framsóknarflokksins heldur einnig með viðræðum við önnur stjórnmálaöfl, enda varð SUF á árunum 1971-1974 kraftmeira og sjálfstæðara í starfi sínu en nokkur önnur ungliðasamtök íslenskra stjórnmálaflokka fyrr eða síðar. 

       „Möðruvallahreyfingin - Baráttusaga“ er frásögn mín af baráttu sem snerist um grundvallarstefnur í íslenskum stjórnmálum og því dugmikla fólki sem lagði mikið í sölurnar til að reyna að gera háleitar pólitískar hugsjónir sínar að veruleika. Að grunni til er bókin byggð á samtíðargögnum af ýmsu tagi, þar á meðal minnisblöðum og dagbókum sem ég hef haldið gegnum tíðina, en ég hef frá unga aldri litið á mig fyrst og fremst sem mann hins ritaða orðs og var alltaf að festa á blað hugmyndir og frásagnir af viðfangsefnum dagsins. Einnig hef ég sótt í fróðleiksbrunn gamalla baráttufélaga, leitað fanga í skjalasafni Eysteins Jónssonar í Þjóðskjalasafninu og endurnýjað kynni mín af umfjöllun fjölmiðla á sjötta og sjöunda áratugnum, en baráttan var að hluta til háð á síðum dagblaðanna. Þá hef ég skoðað liðna atburði í ljósi margvíslegra upplýsinga og rannsókna sem fram hafa komið hin síðari ár um sitthvað sem brallað var með leynd á bak við valdatjöldin.